Brjóstsviði

Hvað er brjóstsviði?
Orðið brjóstsviði getur blekkt marga þar sem það á ekkert skilt við brjóstið eða hjartað heldur tengist það meltingarveginum. Brjóstsviði hrjáir um 2/3 allra þungaðra kvenna á einhverju stigi meðgöngu. Þetta er einn af svokölluðum minniháttar fylgikvillum meðgöngu en getur þó valdið meiri óþægindum en margir af stærri fylgikvillunum. Kona getur byrjað að finna fyrir brjóstsviða á fyrsta þriðjungi meðgöngu en brjóstsviði byrjar oft að valda meiri óþægindum í kringum fimmta mánuð meðgöngu.
Orsök
Hormónin estrogen og prógesterón sem er seytt í miklu magni á meðgöngu eru meginorsök fyrir brjóstsviðanum. Prógesterón veldur því að það slaknar á sléttum vöðvum sem klæða meltingarveginn að innan og minnkar þannig virkni hringvöðvans. Þetta veldur því að magainnihaldið lekur til baka upp í vélindað og magatæmingartíminn lengist. Að auki veldur stækkað leg því að þrýstingur verður á meltingarveginn, sérstaklega á magann. Þetta veldur því að magainnihaldið, sem er orðið hálffljótandi, færist upp í vélinda frekar en niður í smáþarmana og konan finnur fyrir miklum sviða vegna magasýrunnar. Brjóstsviðinn á það svo til að aukast og koma oftar á síðasta þriðjungi meðgöngu. Því þyngri sem konan er því meiri þrýstingur verður á vélindað og því meiri líkur á brjóstsviða. Kona sem þyngist mikið á meðgöngunni er miklu líklegri til þess að finna fyrir brjóstsviða heldur en kona sem þyngist hæfilega mikið.
Einkenni
Helstu einkenni brjóstsviða eru mikill sviði í hálsi og bringu svo og súrt bragð í munni. Stundum finnur konan fyrir því að magainnihaldið lekur aðeins til baka upp í hálsinn. Önnnur einkennni geta líka verið til staðar s.s. andremma, verkur ofarlega í kvið, hósti, ógleði og uppköst.
Meðferð
- Forðastu feitan og sterkan og mat svo og gasmyndandi fæðu.
- Kaffi, súkkulaði, súrir drykkir og safar, unnar kjötvörur og kolsýrðir drykkir. geta einnig valdið brjostsviða.
- Forðastu að boða stórar máltíðir, þ.e. borðaðu frekar fleiri minni máltíðir yfir daginn í staðin fyrir fáar stórar. Einnig er gott að tyggja matinn vel og borða rólega.
- Drekktu á milli máltíða í staðin fyrir að drekka mikið með mat.
- Borðaðu léttan kvöldverð a.m.k. 3 tímum fyrir svefninn.
- Sittu uppi á meðan þú borðar og forðastu að beygja þig fram eða leggjast flöt strax eftir matamálstíma.
- Hækkaðu undir höfði á meðan þú sefur.
- Vertu í þægilegum fötum sem þrengja ekki mikið að þér.
- Ekki stunda líkamsrækt tveimur tímum eftir stóra máltíð.
- Tyggðu tyggjó eða sítrónubrjóstsykur því það örvar munnvatnsmyndum sem hjálpar til við að hlutleysa sýruna í vélindanu.
- Matarsódi (sodium bicarbonate) út í vatn er gamalt húsráð sem virkar oft vel en til skamms tíma. Forðast ætti þó að nota sem meðferð við langvarandi brjóstsviða þar sem það getur komið venjulegri sýru-basamyndun í ójafnvægi.
- Ef ekkert af þessu virkar er hægt að taka sýrueyðandi lyf sem hægt er að kaupa án lyfseðils í apóteki s.s. Gaviscon (mixtúra og töflur), Silgel (mixtúra) og Rennie (töflur).